Rekja má að minnsta kosti um 3/4 af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi til framræslu votlendis og fleiri athafna sem tengjast landbúnaði.

Kolefnisspor matvæla sem framleidd eru hér á landi er mjög hátt og að kolefnisspor kindakjöts, kjúklingakjöts og svínakjöts og fleiri tegunda matvæla er hærra en af innfluttum matvælum af sömu tegund.

Uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er enn stærsta umhverfisvandamál sem Íslendingar eiga við að glíma og hefur verið svo allar götur frá landnámi. Hömlulaus beit og lausaganga sauðfjár er meginástæða þess að gróðurlendi víðast hvar á landinu er staðnað eða í afturför og ástand gróðurfars í engu samræmi við þau loftslagsskilyrði sem á landinu eru. Beit viðgengst enn á íslenskum auðnum, rofsvæðum, örfoka hálendissvæðum og öðrum þeim svæðum þar sem gróður þolir enga beit – hvað þá óhefta beit – sauðfjár. Dilkakjötsframleiðsla á landi sem enga beit þolir hefur eitt stærsta kolefnisfótspor (sótspor) sem þekkist í heiminum og verður seint talin annað en rányrkja. Á meðan þorri landsins er rányrktur, er borin von að gróður landsins geti bundið aukið magn kolefnis til þess að vega upp á móti losun gróðurhúsalofttegunda vegna annarra mannlegra athafna.

Landbúnaðurinn nýtir náttúruauðlindir í starfsemi sinni. Þannig má segja að kindakjötsframleiðsla, sem fer að 1/3 til útflutnings, er ekki aðeins niðurgreidd á fjárlögum heldur ofnýtir hún náttúruauðlindir landsins án endurgjalds, í formi ofbeitar á viðkvæmu landi jafnt á heimalöndum sem afréttum. Það má því segja að hér sé stundaður hernaður gegn landinu – til þess eins að flytja út uppblástur – í formi illseljanlegs kindakjöts. Til þessa hafa stjórnmálaflokkarnir í landinu verið samhentir í þeirri stefnu að halda áfram að fórna skattfé almennings í þágu lausgangandi búsmala sem rýrir höfuðstól gróðurlendisins – til þess eins að framleiða frosið kindakjöt á erlendan markað sem enginn fæst síðan til að kaupa.

Starfshópur umhverfis- og auðlindaráðuneytisins skilaði árið 2015 skýrslunni Landnotkun í dreifbýli og sjálfbær landnýting. Þar segir meðal annars í kafla 8: „Sjálfbærniviðmið fyrir landnýtingu eru kvarði á það hversu mikil nýting má vera á landi miðað við tiltekið ástand og hvernig henni skuli háttað. Einnig geta sjálfbærniviðmið sagt fyrir um hvert ástand lands má vera svo nýting á því geti talist sjálfbær … Sjálfbær nýting lands þarf að fela í sér að ekki sé gengið á auðlind, og þá í þeim skilningi að starfsemi og bygging vistkerfis viðhaldist eða eflist. Sjálfbær nýting lands felur jafnframt í sér að eydd vistkerfi fá tækifæri til endurnýjunar, ná upp eðlilegri starfsemi miðað við þau skilyrði sem eru til staðar og byggjast upp á nýjan leik. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir íslenskar aðstæður þar sem stór hluti vistkerfa á landi hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum.“ Í kafla 8.1. eru settar fram áhugaverðar tillögur að sjálfbærniviðmiðum og mælikvarðar.

Nátturuverndarsamtök Íslands segja í umsögn um búvörulög o.fl.
„Beit búfjár á nagaða mela getur ekki talist vera hófsöm líkt og ráðherra segir vera stefnu stjórnvalda. Frumvarpið fer þvert gegn þessu kjörorði umhverfis- og auðlindaráðherra enda er gert ráð fyrir niðurgreiðslu á lambakjötsframleiðslu langt umfram eftirspurn hér á landi og langt fram í tímann. Þriðjung framleiðslunar yrði svo að flytja út á niðurgreiddu verði.“

Vel gróið, gróskumikið og fagurt land, sem víðast skjólgott og skógi vaxið, eykur ánægju landsmanna og vilja fólks til þess að búa (eða setjast að) í sveitum og styður við vöxt ferðaþjónustu, sem er vaxandi atvinnugrein víða um land. Sjálfbær nýting lands er einnig rétta leiðin til þess að mæta þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem felast í þróunarmarkmiðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, m.a. um að endurheimta skuli skóga og votlendi og að stöðva skuli hnignun jarðvegs og koma í veg fyrir auðnamyndun.

Í nýrri landbúnaðarstefnu á að beita fjárhagslegum hvötum til að ná fram settum markmiðum um sjálfbæra nýtingu samkvæmt þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.  Þannig mætti skilyrða stuðning stjórnvalda við þau sauðfjárbú þar sem er vörsluskylda búfjár á heimalöndum. Stuðningur við beitarbúskap á hálendissvæðum og öðrum svæðum sem viðkvæm eru fyrir beit skal miðast við beitarþol og ástand beitilanda. Styðja ætti við eflingu gróðurs. Styrkja ætti aðgerðir bænda sem leiða til efldrar bindingar kolefnis í gróðri og jarðvegi.

Af þeim aðgerðum liggur beinast við að efla skógrækt til fegrunar, nytja og atvinnusköpunar og endurheimta votlendi þar sem því verður við komið. Með slíkum aðgerðum má ná fram loftslagsmarkmiðum Íslands um leið og komið yrði í veg fyrir að landið blási upp; framleiðni landsins ykist, það yrði hlýlegra og gróðurvænlegra og bæði lífríki og atvinnutækifæri til sveita yrðu fjölbreyttari, sbr. Hriflu-Jónas: „Skógurinn var ákaflega þýðingarmikill fyrir landsmenn. Hann skýldi öðrum gróðri, svo að tún, engi og beitilönd voru grasgefnari en ella. Hann batt jarðveginn, svo að landið náði ekki að blása upp, eins og síðar varð, og hann mildaði loftslagið, svo að hlýrra og gróður-vænlegra var í landinu en nú er, þó að sólarhiti sé samur og var og hafstraumar eigi óhentugri en þá.“

Tilvísanir

Land og gróður – Guðjón Sigurbjartsson – Grein í Mbl. 29.9.2020

Af kolefnisspori sauðfjárræktar – Dr. Þórólfur Matthíasson, prófessor – Grein í Fréttablaðinu 26.9.2019

Lausaganga og lausamennska – Steinar Berg Ísleifsson, grein í Skessuhornið – 17.7.2019

Ályktun Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Skógræktarfélags Íslands um búvörusamninga og náttúruvernd – 5.2.2016

Umsögn Nátturuverndarsamtaka Íslands um frumvarp til laga um um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum — 680. mál – 27.5.2016

Landnotkun í dreifbýli og sjálfbær landnýting – Skýrsla starfshóps Umhverfisráðuneytisins – 2015

Ólafur Arnalds, prófessor – soil scientist – Moldin
Stórslysalegur samningur – grein í Fbl. og á visir.is 26.5.2016

Greining á losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði (2016) Jón Guðmundsson, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, skrifstofa landgæða – Glærur af fundi um landbúnaðarstefnu – 1.3.2016

Halldór Laxness (1970). Hernaðurinn gegn landinu. „Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu…

Illugi Jökulsson (2016) „Landnámsmenn fóru illa með landið“

Raynolds m.fl. 2015. Warming, Sheep and Volcanoes: Land Cover Changes in Iceland Evident in Satellite NDVI Trends.  Niðurstaða þessarar greinar er sú að gróðurfar landsins hafi verið í afturför frá síðustu aldamótum, utan svæða sem friðuð eru fyrir búfjárbeit (skógræktar- og landgræðslusvæða). Ástæðu þess getur ekki verið kólnandi veðurfar, eldvirkni eða neinar ástæður aðrar en ríkjandi landnýting (lausaganga búfjár á landi sem ekki þolir beit).

Áhugafólk um landgræðslu á facebook

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Landgræðsla Íslands

Landvernd

Skógrækt ríkisins